Bernskan í Kleppsholtinu

Ég heiti Brynjólfur Björnsson, Reykvíkingur í húð og hár (hárið að vísu löngu farið). Ég er með ættartengsl í Landeyjarnar í móðurætt og á Djúpavog í föðurætt.

Ég ólst upp á Hjallaveginum í Kleppsholtinu og gekk 6 ára í tímakennslu hjá séra Árelíusi Níelssyni.

Langholtsskóli tók við og var ég alla mína barnæsku þar og lærði að synda hjá kjarnakonunni Helgu Haraldsdóttur.

Knattspyrna í Þrótti

10-11 ára gömlum var mér ýtt í það að fara að æfa knattspyrnu með Þrótti en það kom fljótt í ljós að hæfileikarnir voru ekki miklir. Ég æfði samt í einn vetur með köppum eins og Sigga Sveins og Palla Ólafs sem síðar slóu í gegn í handboltanum.

Þar sem knattspyrnan lá ekki alveg fyrir mér og ég átti það til að skora frekar í eigið mark en mark andstæðinganna fékk ég loks leyfi til að hætta allri knattspyrnuiðkun.

Sunddeild Ármanns

Skömmu síðar byrjaði ég að æfa sund í Sunddeild Ármanns og kom fljótlega í ljós að sundið átti vel við mig og æfði ég í ein 8 - 9 ár í mjög góðum félagsskap.

Ég náði ágætis árangri í sundinu og setti t.a.m. einhver met í aldursflokkum ásamt því að verða nokkrum sinnum Íslandsmeistari í flugsundi, fjórsundi og skriðsundi.

Besti árangurinn var sennilega sá að setja Íslandsmet í 1500m skriðsundi árið 1978.

Árið 1980 lauk mínum sundferli þegar ég lenti í vinnuslysi og braut illa á mér báðar hendurnar.

En sundið hefur alltaf heillað mig og hefur mér alla tíð fundist það vera ein besta hreyfing sem hægt er að stunda sér til heilsubóta. Því lá það beint við að ég færi að þjálfa eftir að sundferlinum lyki, en það er með því skemmtilegra sem ég geri, að segja fólki til og hjálpa því við að halda sér í formi í gegnum sundíþróttina.

Æfingahópur Ármanns 1974

Æfinga/keppnisferð í Glasgow 1974. Þetta var virkilega flottur og skemmtilegur hópur.


Íslandsmet í 1500m skriðsundi

Mynd sem birtist í dagbl. Vísi 27.júlí 1978
þegar ég setti Íslandsmet í 1500m skriðsundi. Sigurður Ólafsson fyrrum methafi óskar mér til hamingju með metið.

Þrjár Ármannsstúlkur

Góð mynd af þremur stúlkum sem æfðu sund með mér. Myndin er sennilega tekin 1974



Landsliðið tekur þátt í 8 landa keppni á Spáni

Landsliðið í 8 landa keppni á Spáni 1975
þar sem ég keppti í 1500m skriðsundi.

Þjálfaraferill

Eftir að ég hætti æfingum og keppni árið 1980 hef ég unnið ýmis skemmtileg störf en ávallt haft sundþjálfun, sundnámskeið og skriðsundsnámskeið samhliða þeim.

Ég þjálfaði keppnisfólk í mörg ár, áður en ég snéri mér alfarið að því að þjálfa og kenna fullorðnum sem vilja læra og taka sundið sem part af sinni líkamsrækt án þess endilega að vera að stefna að einhverri keppni, þó sumir geri það.

Árið 2002 bætti ég við vatnsleikfimi og síðan þá hef ég eingöngu unnið að þjálfun í vatni með Vatnsleikfimi, Sundnámskeiðum fyrir fullorðna, Skriðsundsnámskeiðum, Sundæfingum fullorðinna(Garpasund) ásamt Leikfimi í Víkingsheimilinu fyrir eldri borgara.

Af hverju nafnið Syndaselur ?

Nafngiftin á vefsíðunni er tilvísun í það sem ég fékk oft að heyra frá félögum en þeir vildu meina að úr því ég æfði svona mikið og væri í lauginni alla daga þá hlyti ég að vera "syndur sem selur" eða í rauninni algjör "syndaselur" !!!.

Þegar ég svo er að gera þessa síðu um námskeiðin sem ég er með þá kom eiginlega ekkert annað nafn til greina en Syndaselur.

Að búa til vefsíðu

Ef þig langar til að búa til vefsíðu þá mæli ég með Solo Build It en ég hefði aldrei getað gert svona síðu
nema með þeirra hjálp.

Kerfið er svo einfalt að það þarfnast engrar kunnáttu í forritun né vefsíðugerð!!!


SBI!

New! Comments

Vertu í sambandi !